11.7.2006 | 23:26
Hróarskelda 2006! Ferðasaga
Fyrirgefið biðina á myndunum og þessari ferðasögu..... fékk ekki myndavéla snúru fyrr en um helgina og svo týndi ég lyklunum að íbúðinni og svo neituðu myndirnar hreinlega að fara inn og svo sá ég mig einfaldlega ekki knúin til að skrifa eitthvað blogg því ég var í engu stuði til þess. Hinsvegar nenni ég því núna og myndirnar fljúga inn akkúrat á þessu augnabliki meðan ég skrifa.
En já hvar skal byrja ? Komum til Kaupmannahafnar 27. júní og þá byrjaði smá stress að byggjast upp í manni. Hvað þá þegar við vorum í lest og hittum þar íslenska náunga sem voru í fyrra á hróarskeldu og sögðu okkur að þar hafði tjaldinu þeirra verið stolið í HEILU lagi með vegabréfum, flugmiðum og bókstaflega öllu! Maður vissi ekki alveg við hverju maður átti þá að búast en það reyndist vera langt langt frá einhverju svona veseni.
Um leið og maður kom inná svæðið fann maður bara það að það var 99,9% af fólkinu þarna bara mætt til að skemmta sér, en ekki að leita sér að böggi eða nauðga einhverjum eða eitthvað álíka rugl! Ekkert þjóðhátíðar-íslendinga kjaftæði.
Fengum okkar unaðslega fallega Roskilde-Festival armband við innkomuna sem verður á hendi minni vonandi næstu árin Svo var haldið á tjaldsvæðið hjá Guffa og félögum og náðum þar að troða tjöldum uppí hvort annað og henda okkur á smá blett rétt hjá pissu-girðingu... mmmmmmm! En það var samt ekkert slæmt, svæðið var mjög fínt með frábæru fólki.
En úúúppss.... er alveg að gleyma einu.... að kynna ferðafélagana. Allavega þá vorum við Hildur og Gunna frænka hennar saman í tjaldi og svo umkringis okkur voru Guffi, Halli og Víðir. Svo var Olga vinkona Gunnu lengra í burtu en engu að síður ferðafélagi okkar
Eftir að við vorum búin að vera þarna í 2 daga, semsagt helminginn af upphitun hátíðarinnar, þá var maður algjörlega búinn að venjast aðstæðunum... þ.a.e.s. pissulykt á 10 metra millibili, samlokum með kylling & bacon, tjaldi, billjón fólki og síðast en ekki síst ælu tungumálinu, DÖNSKU!
Manni var farið að líða eins og maður væri bara í venjulegri útilegu en að morgni fimmtudagsins 29. júní þá uppgvötaði maður það að maður væri að fara sjá eitthvað af Editors/Guns 'N Roses/Clap Your Hands Say Yeah/Sigur Rós...... ekki slæm tilfinning sú!
Ákvað ég eiginlega bara á síðustu stundu hvað ég ætlaði að gera enda skárust sveitirnar mikið á við hvor aðra svo við fórum fyrst á Editors en nenntum ekki að standa uppí rassgati svo við sátumst bara uppí sófa á einum bar þarna beint fyrir utan sviðið og hlustuðum Fín sveit!
Svo var farið í það að BÍÐA eftir Guns 'N Roses...... vorum búnir að bíða í 20 min eftir að hún átti að byrja þegar ég, Olga og Halli ákváðum að kíkja aðeins á Clap Your Hands.... sáum þar 3 lög sem var frábært bara uppá það að hafa séð þessa sveit og hvað þá þennan uuuuunaðslega söngvara syngja live! Gátum því miður ekki verið lengur á þeim því við þurftum að bruuuuna á Sigur Rós til að komast á almennilegan stað á þeim. Á meðan fórum við framhjá Orange stóra tjaldinu og viti menn... Guns 'n roses voru ekki ENN komnir á svið eftir klukkutíma bið. En svo stuttu seinna gerðu þeir það loks og sáum við þá taka Welcome To The Jungle. Ég hef nú aldrei fílað þessa blessuðu hljómsveit mikið en þó gaman uppá það að hafa bara séð þá. Heyrði nú reyndar seinna meir að þeir höfðu verið púaðir af sviðinu undir lokin..... svona er að láta bíða eftir sér í KLUKKUTÍMA!
Þá fórum við á Sigur Rós og fengum magnaðan stað... akkúrat fyrir miðju frekar framarlega. Tóku þeir svo mjög svipaðan set-lista og á íslendi í nóvember, nema tóku bara aðeins færri lög. En vááá, hljómburðurinn inní þessu tjaldi var svakalegur... aldrei heyrt annað eins. Í mörgum lögunum þegar þau voru að byggjast upp líkt og í Glósóla, Viðrar vel, Hafssól og Popplaginu tók maður virkilega eftir því. Og líkt og á tónleikunum hér heima, tók hver gæsahúðun á fætur öðrum að skríða upp mjóhryggin á manni. Það í bland við sæluvímu er unaður!
Þeir voru svo án efa eitt af bestu böndunum þarna, en þó átti eitt eftir að slá þeim við og það kom ekki fyrr en daginn eftir!
Sá dagur var nokkuð viðburðarríkur enda fékk ég að sjá mestu vonbrigðin, mestu töffarana, upplifði mesta missirinn og sá tvö einum af bestu böndunum á hátíðinni, nánar tiltekið : Bob Dylan, The Streets, Death Cab For Cutie, Birdy Nam Nam og Scissor Sisters..... viljiði giska í eyðurnar hver var hvað?
Birdy Nam Nam voru án efa mestu töffararnir... þessir 4 frönsku DJ snillingar! Mjög skemmtilegt að hafa séð þá. Hinsvegar var svo Bob Dylan mestu vonbrigðin.... þó svo ég sé ekki mikill Dylan fan þá bjóst ég við að þetta yrði meiri upplifun en svo var því miður ekki. Það varð til þess að ég fór eldsnemma með Halla á einhverja bestu stund lífs míns..... að sjá Death Cab For Cutie. Sáum aðeins af bandinu sem spilaði á undan sem var algjör hryllingur. Töluðu meira á þýsku um fótbolta heldur en að spila en þau kláruðu sig loks og þá tróðumst við fremst með allt fólkið var að fara. Endaði það svo að við komumst alveg fremst og biðum þar í um 45 mínútur. Svo steig hann á sviðið..... goðið Ben Gibbard og hinir 3 félagar hans í sveitinni. Eitthvað sem mig hafði lengi dreymt um.... að sjá hann live. Og þeir voru svo frábærir að ég get ekki lýst því. Tóku öll sín helstu lög og nánast öll mín uppáhalds lög... en hápunktarnir voru án efa þegar hann var einn með kassagítarinn og spilaði I Will Follow You Into The Dark, What Sarah Said, We Looked Like Giants sem spann langt yfir 10 mínútur þar sem Ben fór meðal annars á trommur ásamt hinum trommaranum og nauðguðu þeir gjörsamlega hljóðfærunum sínum og svo loks síðasta lag þeirra og mitt uppáhalds, Transatlanticism. Hversu vel mér leið þegar ég heyrði upphafs-píanónóturnar get ég ekki lýst og einnig þegar hann hóf sönginn á einum af sínum fjölmörgu frábæru textum "Atlantic was born today and I'll tell you how". Svo leið á lagið og það byggðist upp jafnt og þétt þar til þeir gjörsamlega gátu ekki hamast meira á hljóðfærum og svo dampaðist það aftur niður akkúrat undir lokin. Þökkuðu þeir svo fyrir sig, fóru af sviðinu og mér hafði sjaldan liðið jafn vel og akkúrat þá eftir tónleikana. Þó svo ég saknaði þess að sjá lög eins og Tiny Vessels, Stability og Lack Of Colour þá voru þetta fullkomnir tónleikar. Ekki bara lögin heldur líka ða sjá Ben Gibbard og hversu frábær hann og félagar hans eru á sviði. Eina sem skemmdi fyrir þessari upplifun var að The Streets var á sama tíma og því gat ég ekki séð hann Þó hefði ég aldrei getað tekið hann fram yfir þessa upplifun.
Death Cab, Ben Gibbard lengst til vinstri
Sæluvíman hélt sér út kvöldið en stað þess að hún fór að síga út bættist bara enn meira við hana. Ástæðan var sú að við stukkum yfir á Orange tjaldið til að sjá Scissor Sisters. Og váá hvað þau komu á óvart!!! Þegar við komum voru þau því miður búin að taka Take Your Mama Out en voru að spila einhver ótrúlega fallega og rólega ballöðu sem ég man bara því miður ekki hver var. Gæti verið Mary en er ekki viss. Hinsvegar þegar við vorum búnir að koma okkur vel fyrir og komnir í dansfílingin þá tóku þau meðal annars Laura og Filthy/Gorgeous. Hef ég aldrei á ævi minni upplifað annað eins því við sáum laaanga halarófu skoppa framhjá okkur og ég stökk á endan á henni og strákarnir á eftir mér. Vorum við þar dansandi í halarófi um allt svæðið og það var algjör SNILLD! Eitthvað það skemmtilegasta sem við gerðum þarna án efa! Svo mikil stemning, svo mikið gaman, svo mikið stuð...... svo GEÐVEIKT! Gerði ekkert annað en að fullkomna frábært kvöld og hækka Scissor Sisters um mörg hundruð plúsa í mínum kladda!
Á þessum tímapunkti var sólin komin hvað hæst á loft og kominn um 25-28 stiga hiti! Sem þýddi það að maður vaknaði í ógeðslegu svitakófi í um 40 stiga hita inní tjaldi og gat varla andað. Var þá það fyrsta sem maður gerði að taka dýnuna og hoppa út og leggja sig þar.... sem reyndist ekkert alltof gáfulegt seinna meir vegna bruuuuuuna! Allavega gekk þetta svona fyrir sig alla dagana sem eftir voru.Laugardagurinn 1. júlí! Dagskráin á þessum degi var eiginlega hvað síst en þó góð að mínu mati. Stóru nöfnin voru m.a. Primal Scream, Josh Rouse, Pendulum, Deftones, Silver Jews, Tool, Kanye West, HIM, George Clinton/Funkadelic og Phoenix.
Við byrjuðum á að kíkja aðeins á Deftones og þar komst ég algjörlega að því að þeir voru ekki minn tebolli..... svo að eftir aðeins örfá lög þá dreif ég mig á Josh Rouse ásamt Guffa og Víði. Var hann þar aðeins einn á sviði og tók svokallaða "Acoustic" tónleika, öðru nafni kassagítarstónleika. Var hann því ekki vopnaður píanói og fleirum hljóðfærum sem ráða oft ríkjum á plötum hans. Voru tónleikar hans alveg fínir, mjög gaman að sjá hann enda hef hlustað afar mikið á hann en ég efast ekki um að tónleikarnir hefðu verið mun betri með fullu bandi. En toppurinn á honum var án efa lagið Sad Eyes eitt af mínum allra uppáhalds, algjör unaður!
Svo sá ég meðal annars smá af Primal Scream en ekki það mikið til að geta dæmt þá, Silver Jews sem ég varð fyrir smá vonbrigðum með en aaaaðeins of mikill kántrý-þefur þar á ferð fyrir mig. Tool sem ég varð nú reyndar bara mjög hrifinn af, sem kom mér mikið á óvart. Enda frekar þungt rokk, þungt til að melta en ég fílaði sum lögin mjög vel. Ætla án efa að kynna mér þá betur hér með. Svo eftir miðnætti fór ég á án efa einhver skrýtnustu tónleika sem ég hef farið á, Kanye West. Ekki nóg með það að þetta voru fyrstu Hip-Hop tónleikar sem ég hef upplifað heldur var hann alveg jafn mikið í því að spila lög af teipi með öðrum sveitum eins og að rappa eftir sjálfan sig. En lög sem hann spilaði voru m.a. Bittersweet Symphony með The Verve, Ealanor Rigby með Bítlunum og Crazy með Gnarls Barkley. Voru þessir tónleikar ekki beint þeir bestu sem maður hefur séð en samt gaman að hafa séð kallinn enda einn af fáum rappörum sem ég hlusta á af einhverri alvöru. Hefði þó viljað sjá hann takk mitt uppáhaldslag með honum, Hey Mama.
Eftir þetta var ég orðinn töluvert þreyttur en fékk mig þó til að sjá í smá stund HIM. Og eins og ég bjóst við, þá er þetta mörgum vetrarbrautum frá því að vera eitthvað sem gæti nokkurn tímann komist inn í haus minn sem góð músík. Nóg með það.
Síðasti tónleikardagurinn runninn upp og dagurinn tekinn snemma með dönsku Indí sveitinni Figurines kl: 12 um hádegi. Voru þeir mjög fínir og ég verð að kynna mér þá betur. Svo var komið að miklu maraþoni. Hófum gönguna á Arctic Monkeys sem ég varð fyrir vonbrigðum með einungis vegna staðsetningunni sem við vorum á. Sáum vart neitt í sviðið enda bókstaflega ALLIR á þeim, enginn önnur spes sveit á sama tíma þar til The Strokes stigu á svið. Og þeir voru magnaðir! Tóku öll sínu helstu lög og ég er ekki frá því að þeir hafi tekið meira af efni af sínum fyrsta disk, Is This It, heldur en af nýjasta disknum sínum. Gamla og frábæra slagara eins og Last Nite, Is This It, Hard To Exlpain og Take It Or Leave It. Og var líka Nick Valensi annar gítarleikari sveitarinnar án efa svalasti maðurinn á svæðinu með sólgleraugun, sítt hár niðrá axlir og í rauðum converse skóm sem voru myndaðir á svona mínútu fresti á stóru skjánum. En allavega, Strokes=Geðveikir!!
Eftir þá hlupum við Guffi yfir á Placebo á meðan Hildur og Gunna urðu eftir til að vera fremst á Franz Ferdinand.
Placebo fóru laaaangt fram úr mínum björtustu vonum og mér fannst þeir frábærir!! Lög eins og Twenty Years og Follow The Cops Back Home sem eru á nýja disknum þeirra voru án efa ein af hápunktum hátíðarinnar að mínu mati. Diskurinn þeirra nýji, Meds, hækkaði án efa um 1-2 stjörnur í einkunn ef ég væri búinn að dæma hann.... þó svo hann hefði fengið 4 af 5 !Eftir þá frábæru upplifun hvíldum við aðeins lúna fætur á meðan Franz hófu spil sitt, enda var ég heldur ekkert voða spenntur fyrir þeim því ég hafði séð þá áður. Sáum við svo nokkur lög sem var nokkuð flott en þó ekki betra en það sem átti eftir koma.
The Raconteurs náði ég að sjá aðeins 3-4 lög. Og meðal annars slagarann Steady As She Goes sem var brjáluð dansstemning við! Eftir það tóku þeir ballöðuna Together og var það ótrúlega flott... hafði ég þá aldrei heyrt lagið áður. Því miður gat ég ekki haldið mér lengur þar því ég þurfti að leggja af stað yfir á Animal Collective.
Bjóst ég við mjög fámenntu tjaldi enda óþekkt band með meiru og bönd líkt og áður nefnt Raconteurs, Kaiser Chiefs og Roger Waters á sama tíma. En það reyndist vera fuuuullt af fólki þarna. Ég ákvað að vera eitt af þessu sérstaka fólki og gefa skít í allar hinar stóru sveitirnar fyrir sýruna í Animal Collective. Sá ég heldur svo alls ekki eftir því enda voru þetta án efa sérstökustu og einhverjir áhugaverðustu tónleikar sem ég hef upplifað! Meðlimir sveitarinnar voru mjöööög spes en voru með frábæra sviðsframkomu og lifðu sig inní tónlistina svo mikið að það var eins og þeir gerðu einfaldlega ekki annað! T.d. var náungi sem var á svona "synth" borði að gera allskonar spes hljóð með svona kastara á hausnum á sér líkt og hellaskoðarar eru með og var bara í einhverju "kóma" alla tónleikana, með lokuð augun að sveifla sér rólega hægri vinstri. Luku þeir spili sínu þó eftir aðeins 40-50 mínútur og þá hófst eitthvað mesta uppklapp sem ég hef tekið þátt í. Þeir voru ekki á leiðinni að stíga á svið þó en það olli því bara að klappið og öskrin urðu enn meiri. Einhver kona steig á svið til að reyna tilkynna það að þeir höfðu lokið spileríi sínu en það heyrðist ekki múkk í henni fyrir hávaða! Svo eftir töluverðan tíma steig gítarleikarinn á svið og þegar hann tók míkrafóninn og bað um að fá að tala sló algjör þögn á mannfjöldann. Sagði hann þar að þeir gætu því miður ekki spilað lengur og fóru þá flestir mjög vonsviknir en þó ánægðir yfir á Roger Waters.

Ég hljóp eins og fætur toguðu einsamall meðan allt hitt fólkið var þegar komið þangað að horfa á hann. Og viti menn.... um leið og ég kemst á svæðið nálægt Orange tjaldinu þar sem hann var að spila byrjaði gítarinn í Wish You Were Here. Einmitt lagið sem mig langaði hvað mest að sjá enda ekki mikill Pink Floydari í gegn. Sá ég svo restina sem var meðal annars Dark Side Of The Moon í heild sinni og nokkur lög af The Wall. Var ég alveg töluvert sáttur með það og uppgvötaði meðal annars nokkur lög sem ég fílaði mjög vel.... því ég hef ekki kynnt mér þá nógu vel. Allavega lokaði hann hátíðinni fullkomlega og hefur þá án efa hver einasta manneskja á svæðinu verið veeeeeeel sátt!
Tónleikarhátíðin búin þar með! Vöknuðum við svo daginn eftir en voru þá veeel flestir orðnir veikir. Með eitthvað í hálsinum, nefinu eða hvar sem er. Fékk ég loks skýringu á því frá gaur sem ég þekki sem var þarna en hann talaði um "Pissuveikina". En hún lýsti sér þannig að það voru bókstaflega allir náttúrulega mígandi þarna útum allt. Svo var svo heitt og þurrt að ryk fór að stíga upp og sá ég það oft á tíðum á tónleikum. Og þá festust pissubakteríurnar í rykinu og maður andaði þessu að sér... geðslegt ekki satt ?? Allavega held ég að það hafi ekki verið nein tilviljun að veeeel flestir á svæðinu hafi verið á einhvern hátt veikir undir lokin.



Og þá er ferðasögunni einfaldlega lokið held ég bara.... vildi hinsvegar gera smá punkta hér aðeins til að klára þetta.
- Eftirminnilegustu sveitirna
- Death Cab For Cutie
- Animal Collective
- Sigur Rós
- The Strokes
- Scissor Sisters
- Placebo
- Eftirminnilegustu lögin
- Death Cab - We Looked Like Giants / Transatlanticism
- Placebo - Follow The Cops Back Home
- Scissor Sisters - Filthy Gorgeous
- Animal Collective - Grass / Banshee Beat
- Roger Waters - Wish You Were Here
- Sigur Rós - Hafssól
- Mestu vonbrigðin
- Bob Dylan!
- Að hafa misst af The Streets
- Og Morrissey einnig
- Ooooog Phoenix sem ég uppgvötaði eftir ferðina
- Það sem einkenndi ferðina hvað mest
- Pissulykt!
- Sól og hiti!
- Sandwich with kylling & bacon....... kominn með ÓGEÐ!
- Lang bestu kokteilar sem smakkast hafa
- Kynni við skemmtilegasta fólk í heimi, DANI
- Tvífarar
- Og örvæntingafullar tilraunir við dönskuna, sem ekki gekk vel
- Verstu morgnar allra tíma.... þ.a.e.s. að vakna
- Stemning, skemmtun og ENGIN leiðindi!!!
Jæja þá held ég að þetta sé komið nóg, skemmtið ykkur að lesa þetta ef þið virkilega nennið því! Og wúhú! 191 stykki af myndum komnar á netið! Ef þið viljið skoða klikkið þá HÉR
Takk kærlega fyrir þessa ferð kæru ferðafélagar en hún var án efa eitthvað það alskemmtilegasta sem ég hef gert...!
Bless bless,
toto
Athugasemdir
ég var með stanslausan hroll við að lesa þetta.
takk fyrir aftuuur :D :* þetta var ólýsanlega skemmtileg ferð!!
er að vinda mér í myndirnar núna... ;)
Hildur (IP-tala skráð) 11.7.2006 kl. 23:45
vá flashback.. kylling og bacon er eilíf ! en þettta var toppferð, takk fyrir mig valdi minn .. ;)
Víðir (IP-tala skráð) 12.7.2006 kl. 00:03
Þakka þér fyrir :) En já þarna klikkaði ég illilega, auðvitað átti Animal Collective að vera þarna! Kippi því í liðinn
Og já, Roskilde er eitthvað án efa sem allir verða að upplifa!
Þorvaldur "toto" Helgason, 12.7.2006 kl. 09:34
Blessaður Þorvaldur, vá þetta er geggjað hjá þér. Tárin runnu upp svona nokkrum sinnum við lestur. Þetta var án efa skemmtilegasta vika lífs míns og ég þakka þér og ykkur kærlega fyrir samvistina ;D hehe. Við endurtökum þetta svo aftur á næsta ári, Skål !
- Gunna
Gunna ;D (IP-tala skráð) 13.7.2006 kl. 18:46
Vá hvað ég öfunda þig ekki neitt fyrir að hafa farið!!
Sara (IP-tala skráð) 14.7.2006 kl. 14:32
vááá laaangt blogg..mjög duglegur:)
En shit greynilega verið gaman...meiar að segja mig langar að fara á næsta ári:O
Jóhanna (IP-tala skráð) 25.7.2006 kl. 16:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning